CIAO formally opened 18 October 2018

Myndasafn

Kynningarmyndband

Kynningarmynd sem gert var í tilefni af vígslu rannsóknarhússins að Kárhóli í október 2018. Kynnt er þróun og framvindun verkefnisins og bygging rannsóknarhússins tekin saman.

Kynningarmyndband
CIAO location on map

Staðsetning

Rannsóknastöðin er staðsett að Kárhóli í Reykjadal, nálægt þéttbýlinu Laugum. Í u.þ.b. 50 km fjarlægð frá Akureyri og 39 km fjarlægð frá Húsavík.

Arctic Observatory during nighttime with aurora borealis

27 May 2013

Vísindastarfið

Sameiginleg miðstöð í norðurljósarannsóknum á Kárhóli styrkir þær norðurljósarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bætir við þær t.d. á sviði litrófsgreininga. Hún útvíkkar líka þær mælingar sem þegar eru stundaðar hér á landi því fyrirhuguð mælitæki geta gefið ítarlegri og fyllri mynd af eiginleikum norðurljósa en núverandi búnaður gefur kost á. Jafnframt opnast samstarfsmöguleikar við kínverska vísindamenn á öðrum sviðum norðurslóðavísinda, einkum á sviði raun- og náttúruvísinda, t.d. líffræði og loftslagsrannsóknir.Gert er ráð fyrir að kínverskir vísindamenn og vísindamenn annarra þjóða, þ.m.t. íslenskir gestavísindamenn dvelji í miðstöðinni og stundi rannsóknir í skemmri eða lengri tíma, nokkuð sem hlýtur að teljast afar áhugaverð og jákvæð þróun í vísindalegu samstarfi, bæði á svæðinu sjálfu sem og landinu öllu. Nú þegar hefur verið staðfestur áhugi Háskólans á Akureyri, Raunvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofu Íslands og Norðurslóðanets Íslands um að taka þátt í samstarfinu. Gera má ráð fyrir að erlendar vísindastofnanir muni einnig hafa hug á að taka þátt í þessu samstarfi.

Vísindaráð verður stofnað til að hafa umsjón með vísindastarfinu í Norðurljósamiðstöðinni með þátttöku íslenskra, kínverskra og vísindamanna annarra þjóða. Í vísindaráðinu taka m.a. þátt vísindamenn frá Raunvísindastofnun Háskólans, Háskólanum á Akureyri, Veðurstofu Íslands o.fl. m.a. alþjóðlegra vísindastofnana. Vísindaráðið verður ráðgefandi um rannsóknastarfsemi miðstöðvarinnar.

Fjölbreytt rannsóknaraðstaða

Á síðari stigum verkefnisins er áhugi fyrir því að opna svæðið og landið frekar fyrir ýmiskonar náttúruvísindarannsóknum, s.s. á veðurfari eða gróðurfari.

Rannsóknarstöð og GestastofaPRIC hefur lýst yfir vilja sínum til að byggð verði um 600 m2 - rannsóknarstöð og gestastofa komandi árum. Hluti af nýrri rannsóknarbyggingu verði opnaður fyrir gestum og gangandi. Samið verður um rekstrarfyrirkomulag hennar í samráði við AO.

Stofnanir sem koma að vísindasamstarfinu

Ísland: Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans; Veðurstofa Íslands; Háskólinn á Akureyri; Norðurslóðanet Íslands; og Arctic Portal.

Kína: Heimskautastofnun Kína Polar Research Institute of China (PRIC); National Space Science Center, Chinese Academy of Sciences (CAS); Institute of Geology and Geophysics, CAS; China Research Institute of Radio Wave Propagation; National Center for Space Weather; Institute of Space Physics and Applied Technology, Peking University; School of Electronic Information, Wuhan University; School of Earth and Space Science, University of Science and Technology of China; School of Space Science and Physics, Shandong University.

Arctic Observatory during nighttime with aurora borealis

27 May 2013

Norðurljósarannsóknamiðstöðin (Arctic Observatory) verður staðsett að Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Daglegur rekstur verður í höndum AO. Kárhóll er um 158 ha jörð, 710 metra breið. Jörðin nær frá Reykjadalsá og vestur á miðjan hálsinn milli Reykjadals og Seljadals að merkjum Breiðumýrar þar. Bærinn stendur í brekkurótinni.

Á jörðinni hefur verið stunduð skógrækt í samvinnu við Norðurlandsskóga og hafa 53,7 ha verður skipulagðir undir skógræktina. Fullplantað er í landið. Stórt íbúðarhús er á jörðinni og glæsilegur trjágarður er umhverfis húsið. Önnur hús eru fjós, hlaða og geymslur, samtals um 500 m² aðallega nýtt sem geymsla og vinnuaðstaða. Jörðin er vel staðsett í um 45 mínútna akstri frá Akureyri.

Stundaðar hafa verið rannsóknir á norðurljósum á Íslandi í mörg ár, meðal annars af Bretum, Frökkum og Japönum. Kínverjar höfðu samráð við Japan um besta mögulega staðinn til rannsókna á norðurljósum á Íslandi, en Japanir hafa aðstöðu bæði í Borgarfirði og á Tjörnesi. Eftir athuganir Kínverja, sem fengu meðal annars upplýsingar um veðurfar hjá Veðurstofu Íslands, varð jörðin Kárhóll fyrir valinu, en hún var þá til sölu.

Í viðtali við þáttinn Tilraunaglasið á Rúv í lok ágúst 2012 greindi Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, frá verkefninu um Norðurljósarannsóknamiðstöðina. Gunnlaugur hefur komið að undirbúningi verkefnisins frá upphafi. "Tilgangurinn er fyrst og fremst að læra meira um samspil sólar og segulsviðs jarðar og viðbrögð segulsviðsins þegar sólvindurinn skellur á því."

"Ísland er landfræðilega heppilega staðsett til rannsókna á norðurljósum þar sem það liggur í norðurljósabeltinu. Þetta belti liggur umhverfis norðurpólinn, og á meðal ári liggur þetta belti beint yfir Íslandi. Það er eigininlega ekki hægt að fá heppilegri stað en hér til að rannsaka norðurljós, það er bæði einfalt og þægilegt," sagði Gunnlaugur.

Hann útskýrði einnig nánar hvað Kínverjar munu rannsaka. "Segulsviðslínan sem byrjar á Suðurskautinu endar á norðurhveli jarðar og þessi stöð mun verða samstarfsstöð með rannsóknarstöð Kína á Suðurskautinu. Þannig er hægt að fylgjast með ljósagangi norður- og suðurljósa á sama tíma og þess vegna er áhugavert að setja upp svona athuganarstöðvar á sitthvoru hvelinu."

"Menn vita hvað það er sem veldur norðurljósum, en það sem er stærra í þessu samhengi er víxlverkun sólar við jörðina og jarðsegulsvið hennar. Það sem kveikir norðurljós eru hlaðnar agnir sem sólin sendir frá sér og þegar þær agnir skella á segulsviði jarðar bjagast það segulsvið og agnirnar við norður og suðurskautið ná svo langt niður í andrúmsloftið að þær ná að örva agnir í efstu lögum gufuhvolfsins og þar verða þessi ljós til."

"Annað í þessu sem hefur praktíska þýðingu er svokallað geimveður, eða aðstæður uppi í háloftunum þegar gusur af ögnum koma frá sólinni sem gerist óreglulega, en alltaf öðru hvoru, sem getur verið mjög slæmt fyrir gervitungl. Þau geta hreinlega dottið út þegar þessar gusur skella á þeim, þá er gott að hafa fyrirvara og jafnvel láta tunglin snúa bakinu í þessar hrinur og slökkva á helstu einginum til að skaðinn verði sem minnstur. Þetta er praktískt tenging því gögnin frá svona mælingum geta notast í ýmsum mælingum, til dæmis þessum." "Til að byrja með verða settar upp myndavélar, svipaðar þeim sem Japanir hafa starfrækt hér á landi í bráðum 30 ár, ásamt litrófsmæli til að litrófsgreina ljósin. Þannig má sjá hvaða litir eru ríkjandi hvar og á hvaða tíma. Það gefur miklar upplýsingar í stað þess að horfa bara á einn lit í einu. Þá verða líklega settir upp svokallaðir segulsviðsmælar."

"Í framhaldinu er hugsanlegt, ef vel gengur, að setja upp radar, sem er líkur þeim sem Háskólar í Bretlandi hafa starfrækt áður á Íslandi, sem skýtur geislum upp í háloftin og mælir endurkastið. Auk þess gætu komið upp loftnet, en norðurljósum fylgja stundum suð sem fólk heyrir ekki." Gunnlaugur segir að verkefnið sé mjög mikilvægt fyrir Háskóla Íslands. "Þeir buðu okkur að hafa fullan aðgang að gögnum sem aflast. Þetta er tækjabúnaður sem er það mikill og dýr að við hefðum ekki efni nema á broti af honum. Það er mikill fengur að hafa komið þessu samstarfi á og að við höfum aðgang að þessum gögnum sem við getum komist yfir að skoða. Mér finnst það vera mjög mikils virði."

Arctic Observatory during nighttime with aurora borealis

27 May 2013

Þann 20. apríl 2012 undirrituðu Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína rammasamning um samstarf Íslands og Kína í málefnum norðurslóða með áherslur á rannsóknir og samgöngumál á norðurslóðum. Í tengslum við þann samning var svo undirritað samkomulag við Hafmálastofnun Kína (SOA) um samstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna. Samningurinn og samkomulagið skapa tækifæri til frekari samvinnu milli íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði jöklafræði, loftslagsrannsókna, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum og á öðrum sviðum heimskautarannsókna. Í samkomulaginu var gert ráð fyrir þeim möguleika að koma á fót sameiginlegri rannsóknarstofu, norðurljósaathugunarstöð og sameiginlegri miðstöð haf- og heimskautarannsókna á Íslandi.

Polar Research Institute of China (PRIC), eða Heimskautastofnun Kína er opinber rannsóknarstofnun, sem heyrir undir SOA og er staðsett í Shanghai, Kína. Starf PRIC er þungamiðja norðurslóðarannsókna í Kína og starfrækir stofnunin rannsóknastöð á Svalbarða, þrjár rannsóknastöðvar á Suðurskautinu og rekur ísbrjótinn Xuelong, Snædrekann. Nýr ísbrjótur er í framleiðsluferli.

Samhliða undirritun samnings á milli ríkjanna í apríl 2012 komu fulltrúar PRIC til Íslands til viðræðna um vísindasamstarf á norðurslóðum m.a. sameiginlega rannsóknamiðstöð þar sem fyrst í stað yrði lögð áhersla á norðurljósarannsóknir í samstarfi við Raunvísindastofnun Háskólans (RH), Veðurstofu Íslands o. fl. ísl. rannsóknaaðila. Fulltrúar Rannís, Háskólans á Akureyri, RH og Arctic Portal funduðu með þeim, útskýrðu íslenskt vísinda- og lagaumhverfi og sýndu þeim mögulegar staðsetningar, mest á Norðurlandi.

Í júní 2012 var fulltrúum Rannís, RHÍ og Arctic Portal boðið til Shanghai til frekari viðræðna og undirbúnings nánara samstarfs við PRIC.

Samhliða heimsókn ísbrjótsins Snædrekans sem kom hingað til lands í boði íslenskra stjórnvalda í ágúst 2012 var haldið fjölsótt málþing íslenskra og kínverskra vísindamanna í Háskóla Íslands, þar sem þeir gerðu grein fyrir niðurstöðum rannsókna á norðurslóðum á ýmsum fræðasviðum. Á málþinginu var skrifað undir samstarfsyfirlýsingar á milli RH og PRIC um sameiginlega norðurljósarannsóknastöð og RANNÍS og PRIC um vísindasamstarf á norðurslóðum.

Í tengslum við vísindaráðstefnu í Shanghai um samstarf Norðurlandanna og Kína á sviði norðurslóðrannsókna í júní sl. var gengið frá texta áðurnefnds rammasamningsins milli Rannís og PRIC.

Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum: Forseta Íslands, Utanríkisráðuneyti, Mennta-og menningarmálaráðuneyti, Innanríkisráðuneyti, Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Veðurstofu Íslands, Norðurslóðaneti Íslands, Akureyrarbæ, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Þekkingarneti Þingeyinga, og Þingeyjarsveit.

Sjálfseignarstofnun um eignarhald og rekstur rannsóknarstöðvar á Kárhóli

Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnunin Arctic Observatory (AO) með staðfestri skipulagsskrá lögum samkvæmt. Stofnaðilar eru þróunarfélögin tvö í landshlutanum; Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs. , Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf. , sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf. , sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf., en fyrirtækið hefur virka aðkomu að margvíslegum rannsóknar- og upplýsingaverkefnum á sviði norðurslóðamála.

AO er eigandi jarðarinnar Kárhóls og allra mannvirkja sem á jörðinni eru, bæði núverandi og þeim sem gert er ráð fyrir að reist verði í tengslum við verkefnið. Gerður hefur verið samstarfssamningur milli aðila sem felur það í sér að AO sér um rekstur allrar aðstöðu að Kárhóli og útvegar alla nauðsynlega þjónustu vegna starfseminnar. PRIC greiðir allan kostnað vegna fjárfestinga og rekstrar lands og mannvirkja rannsóknarstöðvarinnar samkvæmt leigusamningi sem gerður hefur verið.

Hér má sjá glærur frá Heimskautastofnun Kína, þar sem verkefnið er kynnt. Glærurnar eru frá 2012.

China-Iceland Joint Arctic Observatory | Kárhóll | 4640415 | [email protected]

  • Rannís
  • PRIC
  • Arctic Portal

Designed & hosted by Arctic Portal