Þann 20. apríl 2012 undirrituðu Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína rammasamning um samstarf Íslands og Kína í málefnum norðurslóða með áherslur á rannsóknir og samgöngumál á norðurslóðum. Í tengslum við þann samning var svo undirritað samkomulag við Hafmálastofnun Kína (SOA) um samstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna. Samningurinn og samkomulagið skapa tækifæri til frekari samvinnu milli íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði jöklafræði, loftslagsrannsókna, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum og á öðrum sviðum heimskautarannsókna. Í samkomulaginu var gert ráð fyrir þeim möguleika að koma á fót sameiginlegri rannsóknarstofu, norðurljósaathugunarstöð og sameiginlegri miðstöð haf- og heimskautarannsókna á Íslandi.

Polar Research Institute of China (PRIC), eða Heimskautastofnun Kína er opinber rannsóknarstofnun, sem heyrir undir SOA og er staðsett í Shanghai, Kína. Starf PRIC er þungamiðja norðurslóðarannsókna í Kína og starfrækir stofnunin rannsóknastöð á Svalbarða, þrjár rannsóknastöðvar á Suðurskautinu og rekur ísbrjótinn Xuelong, Snædrekann. Nýr ísbrjótur er í framleiðsluferli.

Samhliða undirritun samnings á milli ríkjanna í apríl 2012 komu fulltrúar PRIC til Íslands til viðræðna um vísindasamstarf á norðurslóðum m.a. sameiginlega rannsóknamiðstöð þar sem fyrst í stað yrði lögð áhersla á norðurljósarannsóknir í samstarfi við Raunvísindastofnun Háskólans (RH), Veðurstofu Íslands o. fl. ísl. rannsóknaaðila. Fulltrúar Rannís, Háskólans á Akureyri, RH og Arctic Portal funduðu með þeim, útskýrðu íslenskt vísinda- og lagaumhverfi og sýndu þeim mögulegar staðsetningar, mest á Norðurlandi.

Í júní 2012 var fulltrúum Rannís, RHÍ og Arctic Portal boðið til Shanghai til frekari viðræðna og undirbúnings nánara samstarfs við PRIC.

Samhliða heimsókn ísbrjótsins Snædrekans sem kom hingað til lands í boði íslenskra stjórnvalda í ágúst 2012 var haldið fjölsótt málþing íslenskra og kínverskra vísindamanna í Háskóla Íslands, þar sem þeir gerðu grein fyrir niðurstöðum rannsókna á norðurslóðum á ýmsum fræðasviðum. Á málþinginu var skrifað undir samstarfsyfirlýsingar á milli RH og PRIC um sameiginlega norðurljósarannsóknastöð og RANNÍS og PRIC um vísindasamstarf á norðurslóðum.

Í tengslum við vísindaráðstefnu í Shanghai um samstarf Norðurlandanna og Kína á sviði norðurslóðrannsókna í júní sl. var gengið frá texta áðurnefnds rammasamningsins milli Rannís og PRIC.

Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum: Forseta Íslands, Utanríkisráðuneyti, Mennta-og menningarmálaráðuneyti, Innanríkisráðuneyti, Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Veðurstofu Íslands, Norðurslóðaneti Íslands, Akureyrarbæ, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Þekkingarneti Þingeyinga, og Þingeyjarsveit.

Sjálfseignarstofnun um eignarhald og rekstur rannsóknarstöðvar á Kárhóli

Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnunin Arctic Observatory (AO) með staðfestri skipulagsskrá lögum samkvæmt. Stofnaðilar eru þróunarfélögin tvö í landshlutanum; Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs. , Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf. , sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf. , sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf., en fyrirtækið hefur virka aðkomu að margvíslegum rannsóknar- og upplýsingaverkefnum á sviði norðurslóðamála.

AO er eigandi jarðarinnar Kárhóls og allra mannvirkja sem á jörðinni eru, bæði núverandi og þeim sem gert er ráð fyrir að reist verði í tengslum við verkefnið. Gerður hefur verið samstarfssamningur milli aðila sem felur það í sér að AO sér um rekstur allrar aðstöðu að Kárhóli og útvegar alla nauðsynlega þjónustu vegna starfseminnar. PRIC greiðir allan kostnað vegna fjárfestinga og rekstrar lands og mannvirkja rannsóknarstöðvarinnar samkvæmt leigusamningi sem gerður hefur verið.

Hér má sjá glærur frá Heimskautastofnun Kína, þar sem verkefnið er kynnt. Glærurnar eru frá 2012.

China-Iceland Joint Arctic Observatory | Kárhóll | 4640415 | info@karholl.is

  • Rannís
  • PRIC
  • Arctic Portal

Designed & hosted by Arctic Portal