Framkvæmdir að Kárhóli

Sjálfseignarstofnunin Aurora Observatory byggir nú Norðurljósarannsóknarhús að Kárhóli í Reykjadal, Þingeyjarsveit. Húsið verður um 760 m² að stærð, staðsett skammt norðan og ofan við bæjarhúsin á Kárhóli í samræmi við staðfest deiliskipulag. Byggingin er 3 hæðir, byggð úr steinsteypu og stáli.

Verktakafyrirtækið SS Byggir vinnur að uppsteypu á húsinu og eru framkvæmdir í fullum gangi. Stefnt er því að rannsóknarstarfsemi hefjist í húsinu haustið 2016.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri í síma 464 0415 eða reinhard@atthing.is.

Myndirnar að ofan sýna útlit og innra fyrirkomulag byggingarinnar sem nú er í smíðum. Meiri upplýsingar eru aðgengilegar undir tenglinum Framkvæmdir.

Norðurljósamælingar í rauntíma

China-Iceland Joint Aurora Observatory

China-Iceland Joint Aurora Observatory (CIAO) er rannsóknamiðstöð fyrir alþjóðlega vísindamenn. Vísindalegt markmið þessa samstarfs er að efla skilning á samspili sólar og jarðar annars vegar og geimveðri hins vegar með því að framkvæma athuganir í háloftum á heimskautasvæðum, t.d. á norðurljósum, breytileika í segulsviði og öðrum tengdum fyrirbærum.

Rannsóknamiðstöðin er byggð á samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana og verður hún staðsett að Kárhóli í Reykjadal. Þar verður miðstöð fyrir vísindamenn ásamt gestastofu.

Rannsóknastarfsemi hófst haustið 2013.

Vísindastarfið

Þær íslensku stofnanir sem koma að vísindastarfinu eru Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Norðurslóðanet Íslands, Háskólinn á Akureyri og Arctic Portal.

Vísindaráð verður starfrækt sem mun halda utan um vísindastarfið.

Ísland er einn besti staðurinn á Norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi áratugum saman.

Starfsemi rannsóknamiðstöðvar á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum.

  • Rannís
  • PRIC
  • Arctic Portal