Opnunardagur kínversk-íslensku rannsóknastöðvarinnar um norðurslóðir
Í dag þann 22. október kl.16:30 munu Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, og Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, taka í notkun kínversk-íslensku rannsóknastöðina um norðurslóðir á Kárhóli, Þingeyjarsveit.
Rannsóknastöðin, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO), á Kárhóli í Reykjadal, er miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum, fjarkönnun og sjávarútvegsfræði.
Rannsóknastöðin á Kárhóli er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana þar sem Rannís leiðir samstarf íslensku aðilanna en PRIC samstarf kínversku aðilanna.
Í fyrstu snýr vísindastarfið að norðurljósarannsóknum með það að markmiði að efla skilning á samspili sólar og jarðar annars vegar og geimveðri hins vegar, með því að framkvæma athuganir í háloftum á heimskautasvæðum, t.d. á norðurljósum, breytileika í segulsviði og öðrum tengdum fyrirbærum. Í rannsóknastöðinni verður fullkomin aðstaða fyrir vísindamenn til mælinga og athugana á norðurljósum. Stöðin er búin fullkomnum norðurljósamyndvélum, litrófsmælum, segulsviðsmælum, gegsæismælum (riometer) og öðrum þeim búnaði sem nútíma rannsóknir á norðurljósum krefjast.
Þær íslensku stofnanir sem koma m.a. að vísindastarfinu eru Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Norðurslóðanet Íslands, Háskólinn á Akureyri, Hafrannsóknastofnun og Arctic Portal. Vísinda- og kynninganefnd með alþjóðlegum hópi vísindamanna verður starfrækt sem mun halda utan um vísindastarfið og útbreiðslu þess.
Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á vísindastarfinu fyrir almenningi. Í rannsóknastöðinni verður gestastofa þar sem upplýsingum um vísindastarfsemina verður miðlað til almennings. Fyrst í stað verður lögð áhersla á kynningu á eðli norðurljósa. Ísland er einn besti staðurinn á norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi áratugum saman. Starfsemi rannsóknamiðstöðvar á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum. Gestastofan verður afar ákjósanleg viðbót við menntun, ferðamennsku, þjónustu og afþreyingu á svæðinu.
Íslensk sjálfseignarstofnun, Aurora Observatory, er eignaraðili að landi og mannvirkjum á Kárhóli og leigir þessa aðstöðu til Heimskautastofnunnar Kína. Landið sem tilheyrir Kárhóli er 156 hektarar. Húsið sem hýsir vísindastarfsemina er 760 fermetrar á þremur hæðum, byggt úr steypu og stáli. Fyrsta hæðin er tileinkuð kynningu á vísindastarfseminni, önnur hæðin er fyrir rannsóknastofur og stjórnun búnaðar, og þriðja hæðin er fyrir rannsóknatæki.
Fyrsta skóflustungan var tekin 2 júní 2014, hornsteinn var lagður 10 október 2016 og fyrstu norðurljósamyndavélarnar voru settar upp í október 2017.